sunnudagur, 27. janúar 2013

Löggulíf á vetrin


Fyrir skömmu horfði Málfarslögreglan á kvikmyndina Löggulíf, í leikstjórn Þráins Bertelssonar, frá árinu 1985. Í myndinni er reyndar ekkert minnst á málfarslögreglu en það er nú önnur saga. Myndin er skemmtileg þrátt fyrir það.

Í upphafskynningu myndarinnar má sjá eftirfarandi texta:
„Hinn svarthvíti búningur frá 1958 minnir á hina eilífu baráttu ljóss og myrkurs – en hefur þó þann ókost íslensks vaðmáls að vera heitur á sumrin en kaldur á vetrin.“

Það var einmitt það:
„á vetrin.“

Þetta snerti við máltilfinningu Málfarslögreglunnar sem hefur vanið sig á að segja „á veturna“ en ekki „á vetrin“.

Við leit á vefsíðunni tímarit.is finnast 716 dæmi um orðasambandið „Á vetrin“. Elsta dæmið er frá 31. desember 1880. Orðasambandið „Á veturna“ er öllu algengara. Um það finnast 20.855 dæmi allt frá árinu 1837 til dagsins í dag. Ef þessi sömu orðasambönd eru slegin upp á vefsíðunni Googlefight, sem leitar að ritmáli á vefsíðum, er munurinn ekki eins afgerandi. Þar hefur „Á vetrin“ yfirhöndina með 6.990 niðurstöðum gegn 6.210 niðurstöðum orðasambandsins „Á veturna“.

Málfarslögreglan gefur sér að prentuð tímarit sem hægt er að lesa á áðurnefndum tímaritavef séu ábyggilegri heimild um rétt mál heldur en textar sem hafa verið skrifaðir á vefsíður á undanförnum árum. Tímaritin hafa (líklega í flestum tilfellum) verið lesin af til þess menntuðum prófarka- og yfirlesurum áður en þau voru prentuð. Slíkt er hins vegar sjaldgæft þegar um er að ræða texta af vefsíðum því ritmál netsins sem hægt er að lesa óprentað beint af tölvuskjá lýtur ekki jafn mikilli ritskoðun eða leiðréttingum og prentað ritmál.

Þess vegna má áætla að réttara sé að segja „á veturna“ heldur en „á vetrin“

Sú virðist líka vera raunin þegar orðinu „vetur“ er flett upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þar kemur beygingarmyndin „vetrin“ hvergi við sögu.

Að hugsa sér! Bráðum verða liðin tuttugu og átta ár síðan kvikmyndin Löggulíf var frumsýnd. Í öll þessi ár hefur enginn minnst á þessa meintu málvillu svo vitað sé.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli